Mikið hefur gengið á hjá FH undanfarna daga. Um þarsíðustu helgi tapaði liðið fyrir Víkingi í úrslitaleik Mjólkurbikarsins og laut svo í lægra haldi fyrir ÍBV á miðvikudaginn. Daginn eftir steig Eiður tímabundið til hliðar sem þjálfari FH eftir að hafa verið tekinn ölvaður við akstur.
Sigurvin mun stýra FH-ingum út tímabilið og fær það verðuga verkefni að bjarga liðinu frá falli. FH hefur leikið samfleytt í efstu deild frá 2001.
„Ég hef ekki skynjað mikið havarí,“ sagði Sigurvin í samtali við Vísi, aðspurður hvort atburðir síðustu daga hafi lagst þungt á leikmenn FH.
„Þetta er auðvitað stór frétt. Á fimmtudaginn tókum við í sameiningu ákvörðun að menn gætu velt vöngum yfir þessu en á morgni föstudags áttu menn að vakna með Leikni í huga. Þetta eru fagmenn sem vita um hvað þetta snýst. Þetta er bara fótbolti, þeir hafa undirbúið sig eins og menn og þetta hefur ekki truflað okkur þannig.“
Treysti á Hafnfirðinga að styðja okkur
Leikur FH og Leiknis átti að fara fram í gær en var frestað vegna veðurs. Þess í stað verður hann á óvenjulegum tíma í dag, klukkan 15:15. Til að fá fólk á völlinn sendu FH-ingar bæjarstjórn og öðrum auðmönnum í Hafnarfirði beiðni á samfélagsmiðlum um að loka vinnustöðum og skólum snemma.
„Ég hef ekki fengið fregnir af því en vona að það gangi vel. Ég treysti á Hafnfirðinga að styðja okkur og ýta okkur yfir línuna,“ sagði Sigurvin léttur. Hann á samt ekki von á margmenni á leiknum á eftir.
„Raunhæft séð myndi maður halda að það verði ekki full stúka. En ég er niðri í Krika núna og veðrið er yndislegt. Við erum ekki að tala um heilan frídag. Menn geta verið rosalega duglegir fyrir hádegið og notið svo síðdegisins á vellinum.“
Leikur FH og Leiknis hefst klukkan 15:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Farið verður yfir leiki dagsins í Stúkunni á Stöð 2 Sport klukkan 21:15.