Handbolti

Gísli hafði betur í öðrum af tveimur Ís­lendinga­slögum í þýsku úr­vals­deildinni

Atli Arason skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk fyrir Magdeburg.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk fyrir Magdeburg. Getty/Hendrik Schmidt

Það voru tveir Íslendingaslagir á dagskrá í þýska handboltanum í dag. Annar endaði með jafntefli á milli Gummersbach og Leipzig á meðan að Magdeburg vann fjögurra marka sigur á Melsungen.

Magdeburg 27-23 Melsungen

Arnar Freyr Arnarsson, leikmaður Melsungen, var næst markahæsti leikmaður vallarins í öðrum af tveimur Íslendingaslögum dagsins en Arnar skoraði sex mörk úr sex skotum í 27-23 tapi Melsungen á útivelli gegn Magdeburg.

Elvar Örn Jónsson, samherji Arnars, bætti við tveimur mörkum úr fjórum skotum á meðan Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður Magdeburg skoraði þrjú mörk úr sjö skotum. Hollendingurinn Kay Smits var hins vegar markahæstur með átta mörk úr 15 tilraunum

Gummersbach 36-36 Leipzig

Gummersbach og Leipzig gerðu jafntefli í hinum Íslendingaslagnum í þýsku úrvalsdeildinni í dag.

Hákon Daði Styrmisson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach á meðan samherji hans Elliði Snær Viðarsson bætti við tveimur. Viggo Kristjánsson skoraði á sama tíma þrjú mörk fyrir Leipzig. Dominik Mappes, leikmaður Gummersbach, var hins vegar markahæstur allra leikmanna á vellinum með 10 mörk úr 14 skotum.

Lemgo 26-21 Flensburg

Teitur Örn Einarsson, leikmaður Flensburg, komst ekki á blað þegar lið hans tapaði á útivelli gegn Lemgo, 26-21.

Fuchse Berlin 34-26 Kiel

Þá vann Füchse Berlin átta marka sigur á THW Kiel í toppslagnum, 34-26. Mijajlo Marsenic, leikmaður Berlin, var markahæsti leikmaður vallarins með níu mörk.

Eftir leiki dagsins er Magdeburg í 4. sæti deildarinnar með 12 stig. Flensburg kemur næst af Íslendingaliðunum en Flensburg er með níu stig í 7. sæti. Gummersbach er svo með jafn mörg stig og Flensburg í 8. sætinu en Leipzig og Melsungen eru í öllu verri málum með aðeins fjögur stig í 13. og 14. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×