Tónlist

Skapa ævintýralegan heim með nýrri plötu

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Gunni Hilmarsson og Ágústa Eva mynda hljómsveitina Sycamore Tree.
Gunni Hilmarsson og Ágústa Eva mynda hljómsveitina Sycamore Tree. Aðsend

Hljómsveitin Sycamore Tree er skipuð Gunna Hilmarssyni og Ágústu Evu Erlendsdóttir. Þau voru að senda frá sér plötuna Colors en hún hefur verið í bígerð í yfir þrjú ár. Blaðamaður tók púlsinn á Gunna.

„Það tók svo langan tíma að vinna plötuna að við höfum gefið út tvær aðrar plötur á meðan vinnan á Colors hefur staðið yfir, Western Sessions og Winter Songs,“ segir Gunni og bætir við:

„Við hugsum hverja plötu sem concept, eitt verk, einn hljóðheim og erum með töluverðan bunka af lögum á lager sem við síðan römmum síðan og röðum í ákveðin hús eða heima.“

Gunni kemur úr heimi hönnuðar og Ágústa Eva úr leikhúsinu en bakgrunnur þeirra nýtast þeim vel.

„Þess vegna er gaman fyrir okkur að leika okkur að því að skapa heima eða sviðsmyndir úr hverju verki eða plötu. Verkið er veglegt, ellefu lög og mikið nostrað við smáatriði. Sviðsmyndin falleg, dreymandi og mjög myndræn þar sem við vonum að það verði auðvelt fyrir hlustandann að fara í ferðalag um heima og geima á meðan hlustað er. Heimurinn er ævintýralegur en bæði einfaldur og sterkur í senn.“

Sykurhúðuð útgáfa

Þá kom einungis til greina að láta öll lögin koma út á sama tíma á plötunni en ekki búta hana niður í smáskífur.

„Því fyrir okkur þá er hún ein heild. Hún byrjar á titil laginu COLORS og endar svo á HOWL sem einmitt gefur hlustandanum vísbendingar um hvað Sycamore Tree gerir næst. Hvaða heim við sköpum næst. Það mun alveg koma á óvart.

Við leyfum okkur líka á þessari plötu að daðra við elektrónisk element og tvö lög, Touché og How does it feel má skilgreina sem hreinræktað popp sem við höfum ekki gert áður. Við köllum það bara Sycapop, smá svona sykurhúðuð útgáfa af Sycamore Tree sem passar svo vel við áferðina á hinum níu lögunum.“

Útgáfutónleikar

Sycamore Tree verður með útgáfutónleika í Fríkirkjunni í kvöld þar sem þau frumflytja plötuna.

„Það verður frábært að spila svo plötuna í fyrsta sinn á útgáfudeginum 7. október og verðum við með stórsveit með okkur til að skila verkinu fullkomlega. Eftir það spilum við vel valin eldri lög og mikil veisla verður. Þetta verður í Fríkirkjunni sem er einstakt hús í svona tónleika.

Framundan hjá okkur er svo að byrja á næstu plötu og smá jólaefni sem við erum að taka upp. Það verður spennandi og fallegt,“ segir Gunni að lokum.


Tengdar fréttir

Ágústa Eva um samstarfið: „Hann segir bara já og amen elskan mín“

„Samstarfið gengur hnökralaust fyrir sig sem ég rek rakleitt til Gunna, hann er einn ljúfasti og opnasti maður sem ég hef kynnst. Hann segir bara já og amen elskan mín og brosir við öllu því sem hendist í hans fang frá mér,“ segir söngkonan Ágústa Eva um samstarf hennar og Gunna Hilmars. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×