Karen Ósk Lárusdóttir, verkefnastjóri aðgerðarmála hjá Landsbjörg, segir útkallið hafa borist á tíunda tímanum í morgun. Skálavörður úr Húsadal var fyrstur á vettvang og aðstoðaði manninn í land.
„Það fóru níu manns í þetta verkefni og einstaklingurinn komst út úr bílnum. Björgunarsveitir reyndu að ná bílnum en það gekk eitthvað brösulega en hann komst svo í land bara stuttu seinna,“ segir Karen en bílstjórinn var heill á húfi og útkallið ekki talið alvarlegt.

Á sama tíma var þyrla Landhelgisgæslunnar í æfingarflugi í Þórsmök og hélt á staðinn þegar útkallið barst.
„Þegar að þyrlan var þarna á svæðinu þá var maðurinn kominn út úr bílnum og kominn í land og var þar í góðum höndum þannig að þyrlan lenti bara á staðnum og þurfti ekkert að grípa inn í,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.
Karen bendir á að þetta sé alvanalegt útkall þar sem bílar festast reglulega í ám í Þórsmörk.
„Skálaverðirnir í Langadal eru ótrúlega snöggir af stað, þeir eru með góða dráttarvél frá Ferðafélaginu og eru ótrúlega snöggir að bregðast við og mjög klárir að ná í bíla upp úr ánni í samstarfi við björgunarsveitina,“ segir Karen.

Fréttin hefur verið uppfærð.