Þeir Ingólfur Sigurðsson, Jakob Smári Magnússon, Eyjólfur Jóhannsson, Hrafn Thoroddsen, Stefán Már Magnússon og Helgi Björnsson tóku nokkur vel valin lög á æfingu sem fór fram í beinni útsendingu hér á Vísi í vikunni.
Þeir byrjuðu á að blása á afmælisköku saman áður en þeir byrjuðu að spila. Þeir hófu æfinguna á laginu Ef ég væri guð. Eitt af því sem þeir ákváðu að æfa var hoppið sitt fræga.

Helgi Björns ræddi það á æfingunni að breyta textanum í laginu Ég sé epli. Lagið var samið fyrir kvikmyndina Veggfóður sem kom út árið 1992.
„Myndin fjallaði náttúrulega mikið um einhverja sveppi,“ útskýrði Helgi fyrir áhorfendum. „Leikstjórinn kom til mín og bað mig að semja lag, sem væri Ég sé sveppi.“

Helgi gerði það ekki og söng þess í stað Ég sé epli. Hann velti því fyrir sér á æfingunni að breyta þessu núna og syngja frekar um sveppi eins og upprunalega hugmyndin var.
„Af því að núna er þetta allt í lagi,“ sagði Helgi og vísaði þar í að í dag tekur fólk sveppi í lækningarskyni.
Opnu æfinguna má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.