Enski boltinn

Lagerbäck minnir fólk á að góðu gen Haaland komi ekki síst frá mömmu hans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck á tíma sínum sem landsliðsþjálfari Norðmanna.
Lars Lagerbäck á tíma sínum sem landsliðsþjálfari Norðmanna. Getty/Denis Doyle

Lars Lagerbäck, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, þekkir vel til Norðmannsins Erling Braut Haaland eftir að hafa þjálfað hann í norska landsliðinu.

Haaland hélt áfram að raða inn mörkum í Meistaradeildinni í gærkvöldi og hefur nú skorað nítján mörk í ellefu leikjum með Manchester City í ensku úrvalsdeildinn og Meistaradeildinni á þessari leiktíð.

Lagerbäck talaði um Haaland í viðtali hjá sænska ríkissjónvarpinu, SVT, en hann var þá gestur í Morgonstudio.

Haaland fékk nefnilega sitt fyrsta tækifæri í norska A-landsliðinu undir stjórn Lagerbäck árið 2019 og skoraði sex mörk í sjö landsleikjum sínum undir stjórn Svíans.

„Hann elskar fótbolta, elskar að æfa og hefur metnaðinn og andlega styrkinn sem er algjörlega frábært. Hann er einstakur að því leiti,“ sagði Lars Lagerbäck.

Faðir stráksins, Alf-Inge Haaland, lék á sínum tíma í ensku úrvalsdeildinni og er mikið í sviðsljósinu í dag. Hinn ungi Erling hefur því alla tíð verið í kringum fótboltann. Lagerbäck vill þó minna alla á það að þar með er ekki öll sagan sögð.

„Hann er með góð gen. Móðir hans, Gry Marita Braut, var frjálsíþróttakona sem keppti í spretthlaupum og í fjölþraut held ég líka. Þaðan kemur væntanlega hraðinn og sprengikrafturinn. Þú getur ekki valið foreldrana þína og verður því líka að vera heppinn þar,“ sagði Lagerbäck.

Lagerbäck er sannfærður um að þessi 22 ára leikmaður haldi fótunum á jörðinni þrátt fyrir alla velgengnina og athyglina.

„Amma og afi hans eiga bóndabýli og hann er hrifinn að því umhverfi. Það mun hjálpa honum að halda sér á jörðinni því hann er með gott bakland þar,“ sagði Lars Lagerbäck.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×