Harrington staðfestir tíðindin við Fótbolti.net í dag. Hann tók við þjálfun kvennaliðs KR þann 5. júní ásamt Arnari Páli Garðarssyni. Hann tók við af Jóhannesi Karli Sigursteinssyni sem hætti snemma móts vegna ósættis við umgjörðina í félaginu.
Fyrr í haust var greint frá því að Arnar Páll yrði heldur ekki áfram hjá félaginu þar sem KR ákvað að endurnýja ekki við hann samning sem rennur út nú í haust eftir lok tímabilsins.
Harrington er nú einnig stiginn frá borði en hann var áður í aðstoðarþjálfari í teymi félagsins í þrjá mánuði í fyrra.
KR féll úr Bestu deildinni en lauk tímabilinu þó á sigri gegn Þór/KA, 3-2 á KR-velli, í lokaumferðinni á laugardaginn var.
Mikið hefur gustað um KR í sumar þar sem umgjörð í kringum kvennalið félagsins hefur verið harðlega gagnrýnd, bæði utan frá og innan félagsins. KR kom upp úr Lengjudeildinni síðasta sumar en hefur nú fallið beint aftur niður í næst efstu deild.
Í samtali við Fótbolti.net segir Harrington að fjölmargt sé hægt að segja um það sem gekk á hjá félaginu í sumar.
„Ég las fyrir nokkrum vikum að þjálfari Aftureldingar sagði að hann gæti skrifað bók um tímabilið, ef það er staðan þá er ég fullviss um að við gætum skrifað biblíu um okkar tímabil," sagði hann við Fótbolti.net.