Þetta kemur fram í frétt Reuters en leki kom upp á Nord Stream 1 og 2, gasleiðslum sem liggja frá Rússlandi til meginlands Evrópu, fyrir viku síðan. Sænska landhelgisgæslan greindi frá því fyrir helgi að þau hefðu fundið fjórða lekann á leiðslunum.
Á laugardag greindi orkumálastofnun Danmerkur frá því að ekkert gas væri eftir í Nord Stream 2 leiðslunni en sænska ríkisútvarpið hefur það eftir landhelgisgæsluni þar í landi að gas sé í auknum mæli að leka úr leiðslunni á einum stað. Ekki liggi fyrir hvers vegna dregið hafi úr lekanum í lögsögu Danmerkur en ekki Svíþjóðar.
Monday´s monitoring of Nord Stream gas leaks in Swedish economic zone can state that "the larger emission is now no longer visible on the surface, while the smaller has instead increased". At the time, the smaller was approximately 30 meter in diameter https://t.co/MBFvxv4NWD
— Jonas Olsson (@JonasOlsson_) October 3, 2022
Norski herinn hefur kallað út hermenn til að standa vörð vinnslustöðvar olíu og orku auk þess sem sænski sjóherinn hefur sent skip út að lekanum, mögulega til að kafa niður að leiðslunni, en óttast er að lekinn úr leiðslunum hafi komið til vegna skemmdarverka.
Jarðskjálftafræðingar urðu varir við sprengingar á svæðinu þegar leiðslurnar byrjuðu að leka og hafa nokkur lönd hafið rannsókn á málinu. Atlantshafsbandalagið telur að um skemmdarverk hafi verið að ræða en yfirvöld í Rússlandi hafa freistað þess að kenna Bandaríkjamönnum um gaslekann.
Rússar lokuðu leiðslunni í ágúst, að sögn vegna viðhalds. Leiðtogar Evrópusambandsins sökuðu rússnesk stjórnvöld aftur á móti um að nota gasið sem vopn gegn vesturlöndum vegna innrásar þeirra í Úkraínu.