Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og ferðamálaráðherra fundaði í gær með fulltrúum fagfélaga innan íslensks safna- og fræðasamfélags um stöðu Þjóðminjasafnsins vegna mikillar óánægju með skipun Hörpu Þórisdóttur í starf þjóðminjavarðar án auglýsingar.
Á fundinum var ákveðið að stofna samráðshóp með ráðuneytinu og fagfélögum sem kemur saman í fyrsta sinn í næstu viku, að því er segir í færslu á Facebooksíðu Félags fornleifafræðinga.
„Félagið mun leggja til að nýlega skipaður þjóðminjavörður verði færður aftur í sitt fyrra starf. Önnur lausn sem félagið mun leggja til er að skipaður verði ráðgjafahópur fagfólks sem gengið var framhjá við skipunina til þess að ræða framtíðarstefnu safnsins og hlutverk þjóðminjavarðar,“ segir í færslu fornfræðinga.
Í færslunni segir jafnframt að stjórn Félags fornleifafræðinga hafi fyrir fundinn í gær vonast eftir heiðarleika og hugrekki af hálfu Lilju Daggar. „Okkur þykir sárt að þrátt fyrir að harma vinnubrögð sín hyggist ráðherra ekki leiðrétta þau,“ segir stjórnin.
Lilja Dögg vísaði því á bug að harma skipun Hörpu í starf þjóðminjavarðar, í samtali við fréttastofu í dag. Hún sagði að ekki stæði til að draga skipunina til baka en að hins vegar hefði mátt auglýsa stöðuna til að skapa sátt um skipunina.
Í pallborðsumræðum á fagráðstefnu safnafólks á föstudaginn sagði Lilja að hún harmaði að safnafólk upplifði skipun Hörpu án auglýsingar sem virðingarleysi gagnvart þeirra merku störfum.
„Ég get bara sagt það við ykkur ef ég hefði áttað mig betur á þessu þá hefði ég bara gert það [auglýst stöðuna] og það hefði ekki verið neitt mál og ég bara harma það að við séum komin í þessa stöðu og það er ekki ykkur að kenna – ég ber ábyrgð á því og ég þarf að finna út úr því í samstarfi við ykkur hvernig við hugum að Þjóðminjasafninu og hvort það sé eitthvað þarna sem þið getið komið með að borðinu til þess að auka traust. Ekkert er fjarri mínum huga en að sýna ykkur vanvirðingu. Ég er bara miður mín yfir því, bara að segja það,“ sagði Lilja Dögg.
„Dapurlegt er að enn hafi ekki komið fram nein málefnaleg eða fagleg rök fyrir því að skipa þjóðminjavörð með þeim hætti sem gert var. Ekkert nýtt kom fram í svörum ráðuneytis hvað það varðar á fundinum; enn er skipuninni lýst eins og um tilfærslu hvers annars embættismanns væri að ræða — ekki forstöðumanns eins höfuðsafna íslenskrar menningar,“ segir Félag fornleifafræðinga.