Erlent

Geimmiðstöð skemmdist þegar Nanmadol gekk yfir Japan

Kjartan Kjartansson skrifar
Björgunarfólk og hermenn leita að aurskriðu sem féll í Mimata í Miyazaki-héraði í gær.
Björgunarfólk og hermenn leita að aurskriðu sem féll í Mimata í Miyazaki-héraði í gær. AP/Kyodo News

Tveir eru látnir og yfir hundrað slasaðir eftir að hitabeltislægðin Nanmadol gekk yfir Japan. Samgöngur eru í lamasessi og víða er rafmagnslaust eftir óveðrið. Þá urðu skemmdir á eldflaugaverksmiðju japönsku geimstofnunarinnar JAXA.

Nanmadol gekk á land sem fellibylur á Kyushu-eyju, syðstu af fjórum stærstu eyjum japanska eyjaklasans, á sunnudag. Bylurinn veiktist eftir því sem hann þokaðist norðar og varð að hitabeltislægð. Honum fylgdi úrhellisrigning sem olli flóðum og aurskriðum. Níu milljónum manna var ráðlagt að yfirgefa heimili sín.

Þeir látnu fórust í Miyazaki-héraði á Kyushu í gær. Karlmaður fannst látinn í bifreið sem varð undir flóði á sveitabæ við bæinn Miyakonojo og annar fannst í aurskriðu í Mimata, að sögn AP-fréttastofunnar. Þá er eins saknað í Hiroshima.

Fleiri en 130.000 heimili voru án rafmagns á þriðjudagsmorgun. Samgöngur komust að mestu leyti í samt horf í dag en flugferðum var enn aflýst í norðaustanverðu landinu. Áður hafði þurft að stöðva ferðir neðanjarðarlesta, hraðlesta, ferja og flugvéla víða.

Á Tanegashima-eyju, suður af Kyushu, skemmdist veggur byggingar í geimmiðstöð japönsku geimstofnunarinnar þar sem eldflaugar eru settar saman.

Hitabeltislægðin stefnur nú út á Kyrrahafið undan norðanverðu Japan, að sögn japönsku veðurstofunnar.


Tengdar fréttir

Fjórar milljónir þurft að yfir­gefa heimili sín

Fellibylurinn Nanmadol kom á land á eyjunni Kyushu í Japan í dag en talið er að um 400 millimetrar af rigningu falli á suðurhluta eyjunnar næsta sólarhringinn. Vindhviður geta náð allt að 230 kílómetra hraða.

„Ofur-fellibylur“ stefnir í átt að Japan

Jarðvísindastofnun Japan hefur óskað eftir því að íbúar á suðurhluta eyjunnar Kyushu yfirgefi heimili sín þar sem fellibylurinn Nanmadol stefnir þangað. Talið er að allt að hálfur metri af rigningu falli á svæðinu á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×