Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú voru meðal um fimm hundruð fulltrúa þjóða við útför Elísabetar II í dag en alls sóttu um tvö þúsund manns athöfnina. Að sögn forsetans var um sögulega athöfn að ræða, en ekki síður tilfinningaþrungna.
„Þetta var vissulega stund sorgar og söknuðar en um leið þrungin sögulegu gildi. Þarna má segja að maður hafi fundið nið aldanna, annars vegar hinn þungi straumur sögunnar og svo nútíminn og svo framtíðin sem voru þarna ofin saman,“ segir Guðni.
Honum hafi þótt vænt um að fá að geta verið á staðnum fyrir hönd íslensku þjóðarinnar en fjölmargir aðrir þjóðhöfðingjar hvaðanæva að úr heiminum voru einnig á staðnum.
„Þarna var þjóðhöfðingi að kveðja sem hefur verið lengur í hásæti en nokkur annar sem sögur fara af, fyrir utan Loðvík fjórtánda. Sjötíu ár sem einkenndust af þjónustu, samviskusemi, virðingu,“ segir Guðni.
„Auðvitað er þetta ekki staður eða stund til að vega og meta sögu breska heimsveldisins eða hvernig framtíðin verður en hitt vitum við fyrir víst, að Elísabet Bretlandsdrottning stóð sína plikt.“

Kastaði kveðju á Joe og Jill Biden
Eflaust er um eitt mesta samansafn þjóðhöfðingja í seinni tíð að ræða en að sögn Elizu er ekkert öðruvísi að vera umkringd þeim heldur en öðrum.
„Við höfum verið staðsett annars staðar þar sem margir þjóðhöfðingjar eru að koma saman en það er skemmtilegt líka að geta séð gamla vini, kasta á þá kveðju, og spjalla aðeins við aðra. Það er líka mikilvægur hluti af þessu,“ segir Eliza.
Það vakti athygli Íslendinga að íslensku forsetahjónin sátu aðeins tveimur röðum frá bandarísku forsetahjónunum, Joe og Jill Biden. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Eliza hittir þau en hún átti fund með Jill um jafnréttismál og menningu í mars þar sem Joe Biden hringdi meðal annars í móður Elizu.

„Ég náði að kasta kveðju til forsetafrúarinnar sem ég hitti í mars, það voru nokkrir þarna sem var gaman að sjá,“ segir Eliza létt í bragði.
Annað sem hefur vakið mikla athygli er hvernig viðstaddir voru fluttir til og frá Westminster Abbey, þar sem um tvö þúsund manns komu saman fyrir athöfnina. Fyrir athöfnina var þjóðarleiðtogum og mökum þeirra safnað saman við Royal Chelsea sjúkrahúsið, að Bandaríkjaforseta undanskildum.
„Við fórum síðan í langferðabifreiðum að Westminster Abbey, allt var þetta gert mjög fagmannlega og virðulega og alveg sjálfsagt að nýta þennan faramáta og ótrúlegt hvernig Bretum tókst að skipuleggja þennan mikla viðburð í Lundúnum, þessari miklu borg,“ segir Guðni.