Heart Aerospace vinnur um þessar mundir að nýrri rafmagnsflugvél sem henti vel í innanlandsflug á Íslandi en vélin er þrjátíu sæta tvinnvél. Vélin gangi fyrir sjálfbæru flugvélaeldsneyti ásamt rafmagni en geti gengið einungis fyrir rafmagni þegar um styttri flug er að ræða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair.
Drægni vélarinnar sé 200 kílómetrar á rafmagni eingöngu og vonast sé til þess að flugvélin verði komin í notkun eftir sex ár, árið 2028.
Haft er eftir Heiðu Njólu Guðbrandsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra rekstrarsviðs Icelandair þar sem hún segir Ísland vera í einstakri stöðu til þess að gera innanlandsflug kolefnislaust.
Í kjölfar undirritunar verði Icelandair hluti af ráðgjafanefnd ásamt öðrum í flug-iðnaðinum svo sem flugvöllum og -félögum. Ráðgjafanefndin hafi verið búin til til þess að hægt sé að tryggja að flugvélin henti þörfum notenda.