Það samsvarar um 1,4 milljörðum íslenskra króna, en Sotheby's, sem sá um uppboðið, segir að gripurinn hafi laðað að mikinn áhuga íþróttaunnenda og annarra safnara. Alls bárust tuttugu boð í treyjuna.
Fyrir rúmum mánuði síðan var greint frá því hér á Vísi að treyjan væri á leið á uppboð og þá var hún metin á um fimm milljónir dollara. Hún seldist þó fyrir rúmlega tvöfalt það verð og er því orðin verðmætasti írþóttaminjagripur sögunnar.
Áður en treyja Jordans seldist í gær var treyjan sem argentínski knattspyrnumaðurinn Diego Maradona klæddist í úrslitaleik HM 1986 verðmætasti íþróttaminjagripur sögunnar. Maradona skoraði tvö mörk í þeim leik, þar á meðal líklega frægasta mark sögunnar sem hefur verið nefnt „Hönd Guðs“ eða „The Hand of God“. Sú treyja seldist fyrir um 9,3 milljónir dollara fyrr á þessu ári.
Brahm Wachter, talsmaður Sotheby's, segir að salan á treyjunni staðfesti það endanlega að Michael Jordan sé vissulega merkasti íþróttamaður allra tíma.
„Þetta met sem sett var í dag staðfestir það að Michael Jordan er merkasti íþróttamaður sögunnar og sýnir það að nafn hans og arfleifð skiptir jafn miklu máli í dag og það gerði fyrir 25 árum síðan,“ sagði Wachter.