Erlent

Rann­sakandinn í máli Bill Clin­ton er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Óháði rannsakandinn Kenneth Starr heldur á rannsóknarskýrslu sinni þegar hann mætti fyrir dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings árið 1998.
Óháði rannsakandinn Kenneth Starr heldur á rannsóknarskýrslu sinni þegar hann mætti fyrir dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings árið 1998. AP

Bandaríski lögmaðurinn Kenneth Starr, sem fór fyrir rannsókninni sem leiddi til ákæruferlis á hendur Bill Clinton Bandaríkjaforseta á árunum 1994 til 1998, er látinn, 76 ára að aldri.

Fjölskylda Starr staðfesti andlátið í gær, en hann lést á sjúkrahúsi í Houston í Texas þar sem hann hafði nýverið gengist undir aðgerð.

Starr starfaði á árunum áður sem dómari og aðstoðardómsmálaráðherra, en var árið 1994 fenginn til að fara með hlutverk óháðs rannsakanda til að rannsaka Whitewater-málið sem sneri að fasteignaviðskiptum forsetahjónanna Bill og Hillary Clinton á níunda áratugnum.

Sem óháður rannsakandi var Starr með víðtækar rannsóknarheimildir og fór rannsóknin fljótlega að snúast að langstærstum hluta um kynferðislegt samband forsetans og Monica Lewinsky, ungs starfsnema í Hvíta húsinu, og þá hvort að forsetinn hafi logið eiðsvarinn til um sambandið og hindrað framgang réttvísinnar.

Rannsóknin leiddi til þess að fulltrúadeild Bandaríkjaþings ákvað að ákæra Clinton til embættismissis, en forsetinn var síðar sýknaður í öldungadeild þingsins.

Neitaði að biðja Lewinsky afsökunar

Starr gaf árið 2018 út metsölubókina Contempt: A Memoir of the Clinton Investigation, þar sem hann fjallaði um rannsóknina. 

Monica Lewinsky á fundi í Noregi árið 2015.EPA

Í samtali við CBS árið 2018 sagðist Starr harma þann sársauka sem sá hluti rannsóknarinnar sem sneri að Lewinsky hafi valdið mörgum, bandarísku þjóðinni þar með talinni. Hann sagði þó að þetta hafi verið nauðsynlegt og neitaði hann að biðja Lewinsky afsökunar.

Lewinsky sjálf sagði í viðtali að Starr og rannsókn hans hafi umbreytt lífi hennar í „helvíti“.

Flóknar tilfinningar

Lewinsky sagði í tísti í gær að fréttir af dauða Starr vekji flóknar tilfinningar hjá sér, en það sem meira máli skipti sé að dauði hans hljóti að vera þungbær þeim sem elskuðu hann.

Starr sneri aftur í kastljós fjölmiðla árið 2020 þegar hann gekk til liðs við verjendateymi Donalds Trump, þáverandi Bandaríkjaforseta, þegar hann var ákærður til embættismissis í kjölfar hinnar svokölluðu Rússarannsóknar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×