Lærisveinar Freys Alexanderssonar hjá Lyngby hafa átt einkar erfitt uppdráttar nú í upphafi tímabils. Liðið fékk Randers í heimsókn í dag og vonaðist til að fyrsti sigurinn kæmi loks.
Tochi Chukwuani, annar af leikmönnunum sem liðið sótti undir lok félagaskiptagluggans, fékk tækifæri í byrjunarliðinu en Alfreð var á varamannabekknum ásamt Sævari Atla Magnússyni.
Eftir markalausan fyrri hálfleik komst Randers yfir í upphafi síðari hálfleiks. Alfreð kom inn af bekknum fyrir Tochi þegar 64 mínútur voru liðnar og Freyr ákvað að krydda upp á sóknarleikinn.
Er heimamenn lögðu allt kapp í að jafna metin tókst gestunum að pota inn öðru marki í uppbótartíma og tryggja sér þar með 2-0 sigur. Lyngby er því áfram á botni deildarinnar með aðeins tvö stig að loknum átta umferðum. Randers er á sama tíma óvænt á toppi deildarinnar.