Argentínumaðurinn Emiliano Sala lést á hræðilegan hátt er flugvél sem hann ferðaðist með frá Frakklandi til Englands fórst yfir Ermasundi. Sala var á leiðinni til Wales þar sem hann átti eftir að kvitta undir samning við þáverandi úrvalsdeildarliðið Cardiff City.
Þar sem leikmaðurinn lék aldrei fyrir Cardiff taldi félagið sig ekki þurfa að borga þó félögin hafi þegar verið búin að ganga frá öllu er kom að kaupunum á Sala.
Nú hefur þriggja manna dómnefnd á vegum Alþjóða íþróttadómstólsins komist að því að Cardiff þurfi að greiða Nantes milljónirnar fimmtán sem samið var um. Fær félagið að greiða þetta í nokkrum greiðslum en sú fyrsta hljóðar upp á 5,3 milljónir punda.
Cardiff City mun áfrýja niðurstöðunni og segir í yfirlýsingu sinni að félagið muni ekki greiða Nantes krónu þangað til niðurstaða áfrýjunarinnar liggur fyrir.
„Ef áfrýjunin ber ekki tilætlaðan árangur og Cardiff verði gert að greiða upphæðina að fullu mun félagið fara í mál við þá sem bera ábyrgð á slysinu til að fá upphæðina sem um er ræðir greidda að fullu,“ segir einnig í yfirlýsingu Cardiff en enska félagið telur Nantes og þá sem komu að flugferðinni örlagaríku ábyrga.
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, dæmdi upphaflega í málinu og var niðurstaða þess sú sama og hjá CAS. Cardiff lætur þó ekki segjast og ætlar í hart þar sem félagið telur á rétti sínum brotið.