Sport

Sá besti í heimi bætir við metasafnið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Duplantis hefur haft algjöra yfirburði í greininni undanfarin misseri.
Duplantis hefur haft algjöra yfirburði í greininni undanfarin misseri. Simon Hofmann/Getty Images for European Athletics

Svíinn Armand Duplantis setti mótsmet í frjálsíþróttakeppni Meistaramóts Evrópu í München í Þýskalandi í gær. Tvö slík met féllu á Ólympíuleikvanginum.

Duplantis er heimsmethafi í stangarstökki en hann bætti eigið heimsmet á HM í Bandaríkjunum í síðasta mánuði er hann flaug 6,21 metra frá jörðu og vann þar með sinn fyrsta heimsmeistaratitil utanhúss. Hann bætti þar fyrra met sitt frá HM innanhúss í Belgrað í mars um einn sentímetra.

Duplantis fékk gull á Meistaramótinu í gær en var þó töluvert frá sínum hæstu hæðum. Hann stökk yfir 6,06 metra sem dugði ekki einungis til gullverðlauna heldur var það einnig mótsmet á Meistaramótinu.

Albanska hlaupakonan Luiza Geza fagnaði þá sigri í 3.000 metra hindrunarhlaupi og var tími hennar upp á níu mínútur og 11,31 sekúndu einnig mótsmet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×