Innlent

Drífa nýtur langmests stuðnings til að leiða ASÍ

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nánast engir kjósendur Sjálfstæðisflokks né Framsóknarflokks völdu Sólveigu Önnu, sem naut stuðnings aðeins 6,1 prósent svarenda.
Nánast engir kjósendur Sjálfstæðisflokks né Framsóknarflokks völdu Sólveigu Önnu, sem naut stuðnings aðeins 6,1 prósent svarenda.

49,4 prósent landsmanna treystir Drífu Snædal best til að leiða Alþýðusamband Íslands, samkvæmt nýrri Gallup könnun. Eins og kunnugt er sagði Drífa af sér embætti forseta ASÍ á dögunum vegna átaka innan verkalýðshreyfingarinnar.

20,9 prósent aðspurðra völdu Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, og 17,9 prósent völdu Vilhjálm Birgisson, formann Starfsgreinasambandsins.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar hlaut 6,1 prósent atkvæða og Kristján Þórður Snæbjörnsson, sitjandi forseti ASÍ, 5,7 prósent.

Fjallað er um könnunina í Fréttablaðinu í dag en þar segir að nánast engir kjósendur Sjálfstæðisflokks né Framsóknarflokks hafi valið Sólveigu Önnu.

Vilhjálmur Birgisson sagðist í samtali við blaðið vera ánægður með stuðninginn en hann teldi niðurstöðurnar endurspegla að þátttakendur hefðu ekki vitað hvað hefði gengið á innan verkalýðshreyfingarinnar og í hverju ágreiningur milli manna væri fólginn.

Drífa sagði af sér sem forseti ASÍ 10. ágúst síðastliðinn, fimm dögum áður en könnuninni lauk, og kann það að hafa haft áhrif á niðurstöður könnunarinnar. Að könnuninni stóð hópur sem kallar sig Áhugafólk um málefni verkalýðshreyfingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×