Fréttastofa hefur fjallað talsvert um fyrirhugaða þungaflutninga um Suðurlandsveginn.
Það er þýska fyrirtækið EP Power Minerals sem stendur að baki áformunum en fyrirtækið vill hefja efnistöku á vikri við Hafursey á Mýrdalssandi.
Vikurinn yrði síðan fluttur með vörubílum alla leið til Þorlákshafnar - nýr bíll færi af stað á kortersfresti.
„Nú þverar þjóðvegur 1 enn sem komið er nokkur þéttbýli á leiðinni til Þorlákshafnar. Þannig við leggjum það til hjá sveitarfélaginu að það verði skoðaður sá möguleiki að skipa þessu öllu út héðan frá ströndinni og ráðast í hafnargerð,“ segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.
Vík er í dag eina sjávarþorp landsins þar sem ekki má finna neina höfn. Gríðarlega mikill sandur er nefnilega á hafsbotni allt í kring um bæinn.
Er alveg raunhæft að koma hér upp höfn?
„Ég held að mönnum hafi ekki fundist það raunhæft hingað til. En það hvað er raunhæft er auðvitað mjög afstætt. Menn héldu hér fyrir ekkert svo löngu síðan að það væri ekki raunhæft að brúa yfir jökulsá en þar er verið að klára núna glæsilega tvíbreiða brú. Það er búið að gera höfn í Landeyjahöfn og ég held að það sé vel hægt að læra af því módeli og betrumbæta það. Þannig að já, ég held að þetta sé alveg klárlega möguleiki sem er hægt að skoða,“ segir Einar.
Sveitarfélagið hefur þegar sett sig í samband við þýska fyrirtækið, sem Einar segir að taki ekki endilega illa í þessa hugmynd.
„Því að við sjáum ekki fyrir okkur að þetta yrði fjármagnað af opinberu fé. En getur boðið upp á tækifæri í alls konar atvinnuþróun; bara í ferðamennsku og sjávarútvegi líka. Þannig að þetta gæti verið mjög spennandi tækifæri fyrir okkur,“ segir Einar.
Hann hefur miklar efasemdir um að hin leiðin - tíðar ferðir vöruflutningabíla sem keyra burt úr sveitarfélaginu með vikur til Þorlákshafnar til að flytja hann til meginlandsins þaðan - myndi skila miklum ávinningi fyrir íbúa Mýrdalshrepps.