Skoðun

Hvað er mikil­vægast fyrstu tvö ár barna?

Erla Bára Gunnarsdóttir skrifar

Við umræður um vöntun á leikskólaplássi fyrir yngstu börnin þ.e.a.s. 12 mánaða börnin okkar þá fæ ég á tilfinninguna að talað sé um dósir í dósaverksmiðju en ekki lifandi einstaklinga með tilfinningar og þrár eftir öryggi í fangi foreldra sinna.

Kæru foreldrar, börnin ykkar missa ekki af félagsþroska þó þau komist ekki á leikskóla 12 mánaða gömul. Það er vegna þess að þau hafa ekki færni til að mynda félagsþroska fyrr en eftir tveggja ára aldur.

Kæru foreldrar, ég veit að flest ykkar elskið börnin ykkar skilyrðislaust, en munið að börn eru ekki búin að mynda geðtengsl fyrr en eftir tveggja ára aldur. Ekki eignast barn fyrr en þið hafið tíma til að gera það sem er best fyrir barnið ykkar en það er að vera með barninu fyrstu tvö ár lífs þeirra.

Kæru foreldrar, ég vil benda ykkur á að lesa bækurnar eftir Sæunni Kjartansdóttir „Árin sem engin man“ og „Fyrstu 1000 dagarnir“. Þar eru helstu rannsóknir á þroska heila- og taugakerfisins teknar saman á góðan og skilvísan hátt og sýnir okkur hversu mikilvægt er fyrir börn að vera hjá sínum umönnunaraðilum fyrstu tvö árin.

Kæru foreldrar, ef allir gerðu það fyrir börnin sín að vera með þeim fyrstu tvö ár lífs þeirra þá þarf ekki að byggja fleiri leikskóla og öll börn 24-30 mánaða myndu komast á leikskóla með vel menntuðum kennurum.

Kæru stjórnmálamenn, til þess að þetta gangi upp þarf að lengja fæðingarorlofið í 24 mánuði eða veita foreldrum sem vilja og geta verið heima með börnin sín fyrstu tvö árin styrk sem næmi kostnaði við vistun barns á leikskóla. Við útreikning á þessari hugmynd bið ég vinsamlegast um að tekið sé inn í reikningsdæmið geðhagur barna og það sem mun sparast í heilbrigðiskerfinu ef öll börn fá að vera í samvistum með foreldrum sínum fyrstu tvö ár lífs síns. Það munu allir græða þegar upp er staðið og öllum líða vel.

Höfundur er leikskólakennari með yfir 30 ára starfsreynslu.




Skoðun

Sjá meira


×