Erna varpaði kúlunni lengst 16,41 metra í annarri tilraun en gerði svo ógilt í þriðju og síðustu tilrauninni, eftir að hafa lagt mikinn kraft í hana. Íslandsmet Ernu er 17,29 metrar svo hún var nokkuð frá því.
„Ég er ekki alveg nógu ánægð með það, mig langaði að kasta lengra. Mér leið svo ofboðslega vel og var að búast við miklu meira og reyndi of mikið í síðasta kasti og fór því upp á og náði ekki að klára það,“ var haft eftir Ernu á heimasíðu Frjálsíþróttasambandsins eftir keppnina.
Auriol Dongmo frá Portúgal átti besta kastið í undankeppninni í dag en hún varpaði kúlunni 19,32 metra. Sophie McKinna frá Bretlandi varð síðustu inn í úrslitin með 17,33 metra kasti en tólf keppendur keppa í úrslitunum í kvöld. Þangað náði Erna ekki en hún fer frá München reynslunni ríkari.
„Þetta var ógeðslega skemmtilegt mót, gaman að vera á svona stórum leikvangi og ótrúlega mikið af fólki,“ sagði Erna.