Sport

Fjór­tán árum eftir ÓL-gull er hún enn að endur­skrifa söguna í 100 m

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shelly-Ann Fraser-Pryce fagnar sigri í Mónakó og sögulegu afreki sínu.
Shelly-Ann Fraser-Pryce fagnar sigri í Mónakó og sögulegu afreki sínu. Getty/Valerio Pennicino

Hin jamaíska Shelly-Ann Fraser-Pryce er 35 ára gömul en er engu að síður fljótast kona heims í dag. Það sannaði hún enn einu sinni á Demantamóti í Mónakó í gær.

Fraser-Pryce náði fljótasta tíma ársins með því að hlaupa 100 metra hlaupið í Mónakó á 10,62 sekúndum.

Hún náði um leið einstökum árangri því þetta var í sjötta sinn á árinu sem hún hleypur undir 10,7 sekúndum í ár en því hefur engin kona náð áður á einu og sama árinu.

Fraser-Pryce tryggði sér heimsmeistaratitilinn i júlí með því að hlaupa á 10,67 sekúndum sem var líka sami tími og hún vann Demantamót í Ungverjalandi á mánudaginn. Þá hljóp hún á 10,66 sekúndum á móti í Póllandi á laugardaginn.

Besti árangur hennar á ferlinum er hlaup upp á 10,60 sekúndur í Lausanne fyrir ári síðan en heimsmet kvenna í 100 metra hlaupi er 10,49 sekúndur sem hin bandaríska Florence Griffith-Joyner setti árið 1988.

Fraser-Pryce varð Ólympíumeistari í Peking árið 2008 eða fyrir fjórtán árum síðan. Það magnað að hún sé enn á toppnum í sinni grein í heiminum. Hún varð heimsmeistari í fimmta sinn í síðasta mánuði.

„Ég gerði það sem ég þurfti að gera, við höfðum gaman og létum klukkuna um að tala. Að geta hlaupið stöðugt í kringum 10,60 skiptir miklu máli. Það er magnað. Það er erfitt að halda hraðanum á þessu stigi,“ sagði Shelly-Ann Fraser-Pryce.

„Ég er á seinni hluta fertugsaldursins og finnst ég hafi meira að gefa. Ég horfi til þess að bæta minn besta persónulega árangur það sem eftir lifir tímabilsins,“ sagði Fraser-Pryce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×