Innlent

Nokkrum ferða­mönnum snúið við á gos­stöðvunum í morgun

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Björgunarsveitir hafa þurft að snúa nokkrum erlendum ferðamönnum við, sem ætluðu upp að gosstöðvum í morgun.
Björgunarsveitir hafa þurft að snúa nokkrum erlendum ferðamönnum við, sem ætluðu upp að gosstöðvum í morgun. Vísir/Vilhelm

Vonskuveður er við gosstöðvarnar í Meradölum í dag og svæðið lokað almenningi. Björgunarsveitir hafa þurft að snúa nokkrum erlendum ferðamönnum við, sem ætluðu að ganga upp að eldgosinu í morgun.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvað í gær í samráði við björgunarsveitir að loka gosstöðvunum í Meradölum í dag. Lokunin tók gildi klukkan fimm í morgun og staðan verður endurmetin síðar í dag.

„Lokanirnar hafa bara gengið fínt, það eru bara einhverjir túristar sem eru að koma og tékka, hafa ekki fengið upplýsingarnar og þeim er bara snúið við,“ segir Bogi Adolfsson formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.

Almannavarnir beindu því til almennings í gær að láta erlenda ferðamenn vita af lokuninni og þeirri beiðni sérstaklega beint til starfsmanna í ferðaþjónustu, á gististöðum og annarra sem eiga í samskiptum við ferðamenn. Svo virðist þó sem einhverjir hafi ekki fengið að vita af lokuninni en þó ekki margir.

„Sem eru bara á öðrum fjölmiðlum en við og eru ekki að sjá Safe Travel.“

Einhverjir hafi verið vonsviknir.

„Já, þeir hafa náttúrulega takmarkaðan tíma á landinu og stundum kemur það alveg en þau skilja það alveg,“ segir Bogi.

Björgunarsveitir munu þá funda með lögreglu og fulltrúum veðurstofunnar um miðjan daginn í dag til að endurmeta stöðuna, hvort tilefni sé til að opna gosstöðvarnar að nýju.

Úrhelli er spáð á Suðvesturlandi og Faxaflóa í dag og lélegu skyggni, sem reynst getur erfitt á torfærum svæðum eins og gosstöðvunum. Þá er nokkuð hvasst á Reykjanesskaga en gul veðurviðvörun er í gildi á svæðinu. Þá mun gasi frá eldgosinu blása yfir höfuðborgarsvæðið síðar í dag. Samkvæmt spá Veðurstofunnar mun gasið berast yfir höfuðborgarsvæðið um miðjan daginn í dag og fram á kvöld.


Tengdar fréttir

Eld­gosið kosti Grinda­víkur­bæ 60 milljónir

Bæjarstjóri Grindavíkurbæjar býst við að eldgosið í Meradölum kosti bæinn um sextíu milljónir. Hann segir að bærinn muni leggja út fyrir verkefnum en að hugað verði að uppgjöri síðar. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að gosstöðvarnar verði lokaðar frá klukkan fimm í fyrramálið vegna vonskuveðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×