Skaðlegt brennisteinstvíoxíð stígur upp frá eldgosinu í Meradölum. Það hefur ertandi áhrif á fólk og sér í lagi þá sem glíma við veikindi í öndunarfærum. Því hefur Veðurstofa Íslands sett á fótt gasmengunarspá sem sýnir dreifingu gassins.
Miðað við spánna mun gas koma yfir höfuðborgarsvæðið um klukkan 4 á morgun og annað kvöld er spáð mengun upp á 2.600 til 9.000 míkrógrömm í einum rúmmetra andrúmslofts við yfirborð, í efri byggðum Reykjavíkur og Mosfellsbæ.

Samkvæmt töflu á loftgæðavef Umhverfisstofnunar er svo mikið magn brennisteinstvíoxíðs í andrúmslofti óhollt fólki. Fólk, sér í lagi viðkvæmir, geti upplifað hósta, höfuðverk og ertingu í augum, nefi og koki.
Gasið helst uppi í loftinu
Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að líkanið eigi það til að ofmeta magn koltvísýrings við yfirborð og því sé best að fylgjast með loftgæðum í rauntíma á vef Umhverfisstofnunar.
„Við lærðum það síðast að það er helst þegar það er hvass vindur sem nær að berja plómuna niður á yfirborðið, sem við sjáum tölur eitthvað líkar því sem í líkaninu,“ segir hún. Ekki er spáð miklum vindi á morgun svo ósennilegt er að gasið nái til jarðar.
Ekkert varð úr spáðri mengun í Vogum
„Það var gert ráð fyrir talsvert háum styrk í Vogum í nótt og það mældist ekkert og ekki í Garði heldur. Við sáum plúmuna, hún bara náði ekki til yfirborðs,“ segir Elín Björk. Áfram er spáð nokkurri mengun í Vogum í dag og í Þorlákshöfn og nágrenni seinna í dag.
Hún segir erfitt að gera nákvæma spá um gasmengun við yfirborð vegna þessa. „Þetta er erfið míkróeðlisfræði og við erum ekki með reikniafl til þess að fara í mjög fína möskvastærð,“ segir Elín Björk.
Þess vegna sé betra skoða áhrifasvæðakort Veðurstofunnar, sem sýna dreifingu gass á sex og 24 klukkustunda tímabili, og loftgæðakort Umhverfisstofnunar.

„Það er alveg óþarfi að örvænta og ef fólk er viðkvæmt fyrir er gott að forðast áreynslu utandyra og loka gluggum,“ segir Elín Björk og bætir við að eðlilegt sé að einhver loftmengun komi frá eldgosi í nágrenni við byggð.