Eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi og myndum er töluverður fjöldi bíla á bílastæðinu við Suðurstrandaveg og við veginn sjálfan.
Veðuraðstæður hafa ekki verið sérstakar í dag ef marka má vefmyndavélar sem snúa að eldgosinu.
„Nei, það er hífandi rok, grenjandi rigning og svartaþoka upp á Fagradalsfjalli eða á gönguleiðinni, segir Eðvarð Atli Bjarnason í vettvangsstjórn í Grindavík þegar Vísir náði tali af honum á þriðja tímanum.
Eitthvað virðist þó þokunni vera að létta akkúrat yfir gosstöðvunum eftir því sem liðið hefur á daginn miðað við útsendingu vefmyndavéla frá svæðinu. Fáir hafa þó lagt leið sína að sprungunni sjálfri þar sem gýs.

„Það er ekkert fólk staðsett við gígana. Það er mengun þar yfir en það er töluvert af fólki á leiðinni upp á fjall. Öll bílastæði orðin vel pökkuð og fólk farið að leggja við Suðurstrandavegi, segir Eðvarð Atli og bætir við að flestir fari svokallaða gönguleið A.
Samkvæmt athugasemd veðurfræðings verða aðstæður til eldgosaskoðunnar lélegar í kvöld en það hvessir af suðaustri með rigningu og súld á umbrotasvæðinu. Betra veður til útsýnisferða verður á morgun, laugardag. Á sunnudag gengur í suðaustan 13-18 m/s á svæðinu með mikilli rigningu og verður ekkert ferðaveður á svæðinu.