Þetta kemur fram á jarðhræringatöflu Veðurstofu Íslands en Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, staðfestir niðurstöðurnar í samtali við Vísi.
Sá stærsti var sem áður segir af stærðinni 4,6 en hann varð á 2,7 kílómetra dýpi 3,4 kílómetrum Suðaustan Fagradalsfjalls. Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist nokkuð víða, í Grindavík, Reykjanesbæ, á höfuðborgarsvæðinu og austur að Selfossi.
Hulda Rós segir eftirskjálfta af stærðinni þrír hafa fylgt þeim stóra um mínútu seinna.
Hún segir að nokkuð minni virkni hafi verið á svæðinu í nótt en undanfarna daga enda hafi verið mikill hasar á svæðinu undanfarið.
Hulda Rós segir erfitt að segja til um það hvort hægari skjálftavirkni þýði að nú styttist í eldgos.
„Þegar gaus síðast þá hægðist á í smá tíma áður en það gaus. Það er erfitt að segja til um hvað þetta þýðir en það virðist nú enn þá vera einhver virkni,“ segir hún.