Nokkuð stöðugur hristingur virðist vera á Reykjanesskaganum um þessar mundir. Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands hafa átta skjálftar yfir þremur að stærð mælst síðan öflugur skjálfti fannst vel á Reykjanesinu og höfuðborgarsvæðinu klukkan 02:37 í nótt.
Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að skjálftavirkni hafi tekist að róast eftir þann stóra í gær en enn sé þó nokkur virkni á svæðinu.
Hún segir skjálftana sem orðið hafa í nótt vera svokallaða gikkskjálfta sem kvikugangur við Fagradalsfjalla valdi. Því sé ekki líklegt að kvika sé að safnast saman við Kleifarvatn en þar hafa nokkrir af skjálftunum átt upptök sín.
Í athugasemdum jarðvísindamanns á vef Veðurstofunnar segir að fimmtán skjálftar hafi mælst yfir fjórum að stærð í skjálftahrinu sem hófst á laugardaginn á svæði milli Þorbjarnar við Grindavík og Kleifarvatns. Sá stærsti þeirra mældist 5,4 að stærð á sunnudaginn um þrjá kílómetra frá Grindavík.
Vakin er athygli á aukinni hættu á grjóthruni og fólki er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum, nálægt bröttum sjávarbjörgum og forðast svæði þar sem grjót getur hrunið.