Fannar Jónsson staðfesti þetta í samtali við Mbl. Hann sagði skemmdirnar staðbundnar og unnið yrði að viðgerðum í kvöld en líklega yrðu þær fram eftir nóttu.
Þá sagði starfsmaður HS Orku að unnið verði fram á nótt að viðgerðinni í samtali við Rúv.
Aðveitulögn fyrir kalt vatn inn í Grindavík fór í sundur við Svartsengi eftir stóra skjálftann sem reið yfir rétt fyrir sex á Reykjanesskaga. Það er því kaldavatnslaust hjá íbúum bæjarins en unnið er að því að gera við lögnina.
Almannavarnir segja tilkynningar um tjón hafa borist frá Grindavík eftir að skjálfti að stærð 5,4 reið yfir um þrjá kílómetra austnorðaustur af bænum rétt fyrir sex í kvöld. Engar tilkynningar um slys af fólki hafi hins vegar borist.
Stærsti skjálftinn til þessa í yfirstandandi jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall reið yfir tólf mínútur í sex í kvöld og var 5,4 að stærð. Tveimur mínútum síðar reið yfir annar stór skjálfti sem var 4,3 að stærð. Skjálftarnir í dag hafa mælst á grynnra dýpi en í gær sem sérfræðingur segir benda til kvikuhlaups.
Stærsti skjálftinn í yfirstandandi jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall reið yfir klukkan 17:48. Samkvæmt mælingum á vef Veðurstofunnar var skjálftinn 5,4 að stærð.