Greint er frá þessu í tilkynningu frá Samherja í gær.
Þar segist Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri útgerðarfélagsins, ætla sér að fjárfesta fyrir allt að fjóra milljarða í Silfurstjörnunni í Öxarfirði í laxeldi og seiðaframleiðslu.
Þá sé jafnframt að hefjast bygging nýrrar seiðaeldisstöðvar á Stað í Grindavík fyrir um milljarð. Að sögn Þorsteins ætlar Samherji að vera klár með seiði fyrir þá eldisstöð, gangi allt samkvæmt áætlun varðandi hina stóru eldisstöð við Reykjanesvirkjun.
„Við ætlum að nýta þá þekkingu sem til er og gæði lands og sjávar í sameiningu. Við höfum trú á að við getum byggt upp landeldi hér sem geti verið arðbært. En það kostar gríðarlega fjármuni. Við gerum ráð fyrir að Samherji ráði við fyrsta áfangann,“ er haft eftir Þorsteini.