Veratti kom til Parísar frá Pescara árið 2012. Þrátt fyrir að glíma reglulega við meiðsli hefur hann verið lykilmaður í árangri PSG undanfarin ár. Sem stendur er hann þriðji leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins með 378 leiki. Aðeins Jean-Marc Pilorget (435) og Sylvain Armand (380) hafa leikið fleiri leiki fyrir félagið.
Hinn 29 ára gamli Veratti er að mörgu leyti tengdari Frakklandi heldur en Ítalíu og gaf út í viðtali við Gazzetta dello Sport á Ítalíu að hann myndi á einhverjum tímapunkti sækja um franskan ríkisborgarétt.
Dans la presse italienne, le milieu du PSG Marco Verratti a exprimé son désir d'acquérir la nationalité française https://t.co/okcwcKZ9j1 pic.twitter.com/cXtNXSdXjq
— L'ÉQUIPE (@lequipe) July 15, 2022
„Ég fór frá litlu þorpi í Abruzzo til Parísar þar sem þú er umvafinn mismunandi menningarheimum. París er frábær borg og hefur gefið mér mikið,“ sagði Veratti í viðtalinu og viðurkenndi að búa í París hefði mótað hver hann er í dag.
„Mér líður mjög frönskum þrátt fyrir að vera enn ítalskur. Einn daginn mun ég sækja um franskan ríkisborgararétt þar sem börnin mín eru fædd hér,“ bætti hann við.
Veratti á að baki 49 A-landsleiki fyrir Ítalíu og spilaði sinn þátt er Ítalía varð Evrópumeistari á síðasta ári. Þá hefur hann orðið franskur meistari átta sinnum og sex sinnum franskur bikarmeistari.