Árásarmaðurinn hafði kvartað við hundaeigandann yfir því að hundarnir væru að kasta af sér þvagi í blómaker sem tilheyrir fjölbýlishúsi. Eftir að þau ræddu saman fór maðurinn að sparka í konuna og hundana. Lögreglan rannsakar málið sem líkamsárás og brot á dýraverndunarlöggjöf.
Þá var einstaklingur á stolinni bifreið handtekinn í morgun en í bifreiðinni var þýfi ásamt fjármunum sem talið er að sé úr innbrotum sem framin voru í nótt. Hann var færður í fangageymslu og verður yfirheyrður.
Einstaklingur var handtekinn við Austurvöll eftir að lögreglu barst tilkynning um mjög ógnandi mann. Hann var vistaður í fangageymslu og lætur renna af sér þar.
Í austurbæ Reykjavíkur kom upp eldur í þvottavél og náði húsráðandi að slökkva eldinn með handslökkvitæki. Í dagbók lögreglu segir að það sé mikilvægt að eiga slík slökkvitæki þó þau séu lítil og geri lítið gegn miklum eldi.