Lægðin sem olli vestan hvassviðrinu í gær er nú komin norðaustan af landi og segir Teitur Arason veðurfræðingur að vestanáttin fari minnkandi í dag og stytti víða upp en…
„Síðan fer að nálgast úr suðvestri næsta lægð og hún stjórnar veðrinu hjá okkur um helgina, það er að segja á laugardag og sunnudag. Hún veldur í grófum dráttum sunnanátt með rigningu og súld sunnan- og vestanlands en úrkomulítið og jafnvel bjartir kaflar í norðaustur fjórðungi landsins og þar verður jafnframt hlýjast.“
Mesta úrkoman verði á Suðurlandi þar sem bæði Landsmót hestamanna fer fram og fjölskylduhátíðin Kótelettan.
„Hún verður nokkuð drjúg þar. Rigningasuddi en á öllu sunnan-og vestanverðu landinu má búast við vætu um helgina.“
Veðrið á Austfjörðum ætti að sleppa til um helgina en þar fer fram þungarokkshátíðin Eistnaflug.
„Austfirðirnir verða sæmilegir. Ekki er búist við mikilli rigningu þar og gæti þá jafnvel sést til sólar.“
En varðandi Suðurland; er engin vonarglæta alla helgina?
Nei, því miður. Það virðist ætla að verða þungbúið alla helgina á Suðurlandi, segir Teitur Arason Veðurfræðingur. Liðsmenn Bítisins á Bylgjunni slóu á þráðinn til Einars Björnssonar, framkvæmdastjóra Kótelettunnar, sem sagðist enn halda í vonina.
„Við erum búin að halda ellefu svona hátíðir og við höfum alltaf fengið frið frá eitt til fjögur sem er svona okkar kjarnatími á laugardeginum, sem er viðkvæmasti tíminn. Það hefur alltaf gengið eftir. Það hefur alltaf verið messufært og gríðarleg stemning og það er það sem við erum að fókusera á,“ sagði Einar Björnsson framkvæmdastjóri Kótelettunnar í Bítinu á Bylgjunni.
Hér að neðan er hægt að hlusta á allt viðtalið við Einar um dagskrá hátíðarinnar og raunar allan morgunþáttinn í heild sinni.