Allt frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu fyrir tæpum fimm mánuðum hafa Úkraínumenn þrábeðið Vesturlönd að útvega þeim nútímaleg þungavopn sem nú hafa borist þeim. Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu sagði í ávarpi sínu til þjóðarinnar í gærkvöldi að nú væru þessar vopnasendingar loksins farnar að skila árangri í stríðinu við Rússa.

Þeirra á meðal eru fjölodda færanlegir skotpallar fyrir langdrægar og mjög nákvæmar eldflaugar sem Bandaríkjamenn útveguðu. Forsetinn segir varnarlið Úkraínu hafa náð að valda innrásarliðinu verulegu tjóni með árásum á birgðastöðvar og aðra mikilvæga staði hjá hersveitum Rússa.

„Þessar árásir hafa dregið verulega úr árásargetu rússneska hersins. Tjón innrásarliðsins mun eingöngu aukast á næstu vikum og það mun draga úr getu þeirra til birgðaflutninga,“ sagði Zelenskyy í ávarpi sínu.
Forsetinn skoraði á alla þá sem væru í sambandi við íbúa í þeim hluta í suðurhluta landsins sem Rússar hefðu hernumið, eins og í Kherson og öðrum borgum, að segja íbúunum sannleikann. Að stjórnvöld Úkraínu hefðu ekki gleymt þeim.
„Úkraínskar hersveitir sækja nú fram í nokkrar hernaðarlega mikilvægar áttir, sérstaklega í suðurhluta landsins, í héruðunum Kherson og Zaporizhzhia,“ sagði Zelenskyy.

Varnarlið Úkraínu væri að berjast um yfirráðin um allan suðurhluta landsins og Donbas svæðisins í austurhlutanum.
„Þar eru nú hörðustu bardagarnir, í nágrenni Slovyansk og Bakhmut. Við erum einnig að berjast um yfirráðin í Kherson héraði. Innrásarliðið skal ekki ímynda sér að vera þess í landinu sé til langframa og að yfirburðir stórskotaliðs þess vari að eilífu,“ sagði Volodymyr Zelenskyy í ávarpi til þjóðar sinnar í gærkvöldi.