Í síðasta mánuði var greint frá því að um 65 prósent landsmanna teldu hvalveiðar hafa neikvæð áhrif á orðspor Íslands, samkvæmt könnun Maskínu. Þá hefur framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar sömuleiðis sagt hvalveiðar skaðlegar orðspori Íslands á alþjóðavísu. Það hefur ferðamálastjóri einnig gert.
Í samtali við fréttastofu að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum sagðist Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra ekki telja að þörf væri á breytingum.
„Þær hvalveiðar sem við stundum eru byggðar á vísindalegum forsendum, ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunnar, og eins og staðan er í dag þá tel ég að við eigum ekki að gera breytingar. En um leið og við sjáum að þessum hagsmunum ferðaþjónustunnar sé ógnað eða teflt í tvísýnu, þá eigum við að staldra við og endurskoða stöðuna,“ sagði Lilja.
Ferðamönnum sem koma hingað til lands hafi fjölgað og raunar hafi fleiri þeirra lagt leið sína til Íslands en áætlanir hafi gert ráð fyrir.
Mikilvægt að meta hvort staldra eigi við
Lilja sagðist þó meðvituð um að margir hefðu afar sterkar skoðanir á hvalveiðum.
„Þetta er alltaf hagsmunamat og eins og staðan er í dag þá er fjöldi ferðamanna sem kemur, en við erum alltaf á vaktinni varðandi þetta mál.“
Aðspurð um sína persónulegu skoðun á hvalveiðum við Íslandsstrendur sagðist Lilja ekki ætla að þykjast geta gefið betri ráðleggingar en Hafrannsóknarstofnun.
„Hins vegar hefði ég mjög sterkar skoðanir á því, ef við myndum sjá að þetta væri farið að tefla hagsmunum ferðaþjónustunnar í tvísýnu. Þá, út frá þjóðhagslegum hagsmunum, tel ég að við ættum að staldra við,“ sagði Lilja.