Vísir frétti af því að Þráinn Freyr Vigfússon, stofnandi og einn eigenda ÓX á Laugarvegi, hefði lagt land undir fót um helgina og farið til Stafangurs. Í samtali við Vísi staðfesir Þráinn að hann sé í Noregi og ástæðan sé einföld; hann fékk boð á Michelin-athöfnina í kvöld.

Hann er ásamt samferðafólki sínu spenntur fyrir kvöldinu en bendir þó á að boð á athöfnina þýði ekki endilega að ÓX fái stjörnuna eftirsóttu. Það komi ekki í ljós fyrr en eftir að tilkynnt hefur verið um val dómnefndarinnar.
Fari allt á besta veg fyrir Þráin og félaga mun ÓX verða annar veitingastaðurinn hér á landi sem hlýtur Michelin-stjörnu. Fyrir er veitingastaðurinn Dill með eina stjörnu.
Vísir hefur einmitt öruggar heimildir fyrir því að Gunnar Karl Gíslason, yfirkokkur og einn eigenda Dill, sé einnig í Stafangri og hafi fengið boð á athöfnina í kvöld. Gunnar Karl hefur tvisvar farið utan og komið heim með stjörnu fyrir Dill, því er spennandi að sjá hvort honum takist að endurnýja stjörnuna sem hann tók með heim í fyrra.

Fylgjast má með athöfninni í beinni útsendingu hér að neðan en hún hefst klukkan 16:00.