Þetta er á meðal þess sem kemur fram í viðtali Túrista við Skarphéðinn Berg. Þar barst talið að hvalveiðum Hvals sem hófust á dögunum.
Hvalveiðarnar eru umdeildar og bent hefur verið á möguleg neikvæð áhrif þeirra á ferðaþjónustuna, eina mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.
Kristján Loftsson, eigandi Hvals, gaf reyndar afar lítið fyrir þessa gagnrýni í viðtali við fréttastofu á dögunum. Það væri kjaftæði að ferðamenn sniðgangi Ísland vegna hvalveiða.
Í viðtali Túrista við Skarphéðinn Berg er komið inn á þetta og spurt um áhrif hvalveiða á ferðaþjónustuna.
Í viðtalinu er tekið fram að Skarphéðinn hafi brugðist við spurningunni með því að draga upp símann og sýna blaðamanni langa röð tölvupósta frá fólki í útlöndum sem mótmæli hvalveiðunum og hóti jafn vel að koma aldrei til landsins svo lengi sem hvalveiðar séu stundaðar hér við land.
Bendir Skarphéðinn á að áfangastaðurinn Ísland sé einkum seldur til ferðamann sem aðgöngumiði að ósnortinni náttúru.
„Ferðaþjónustan er auðlindadrifin atvinnugrein. Við erum að selja aðgang að náttúrunni. Fólk um allan heim sem lætur sig varða um náttúruna lítur svo á að fjölbreytileiki hennar sé mikilvægur – og hvalurinn gegni þar stóru hlutverki. Af þessum sökum getur við ekki haldið á lofti hugmyndinni um ósnortna náttúru Íslands en á sama tíma látið eitthvert leyfi til að veiða hvali standa óhaggað,” sagði Skarphéðinn sem telur jafn framt að hvalveiðar hafi engin jákvæð áhrif á afkomu þjóðarinnar.