Þetta segir Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, í samtali við Fréttablaðið.
Anna Hildur segir ákvörðun stjórnvalda að heimila heimsendingu á áfengi „glórulausa“ þar sem rannsóknir hafi sýnt að það auki fíknivandann. Hún bendir meðal annars á að dagdrykkja eldri borgara hafi tvöfaldast, þrátt fyrir skorður við áfengissölu.
Heimkaup tilkynntu í vikunni að fyrirtækið hygðist hefja áfengissölu í gegnum netið, þar sem áfengið yrði keyrt heim að dyrum. Þetta getur fyrirtækið gert með því að nota félag í Danmörku sem söluaðila, Heimkaup ApS, en hið íslenska Heimkaup sér um dreifinguna.
Fréttablaðið hefur eftir Óla Birni Kárasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, að það sé fráleitt að innlendir aðilar geti ekki boðið upp á sömu þjónustu og erlend fyrirtæki.
„Vandinn er sá að lögin eru ekki í takti við nútímann og þess vegna hefði verið farsælt skref að samþykkja frumvarp Hildar Sverrisdóttur í vor; eyða óvissu sem er til staðar,“ segir Óli Björn. Hann segir að löggjafanum beri að tryggja jafnræði.