Dómar Hæstaréttar Bandaríkjanna hafa vakið mikla athygli síðustu vikur, þá sérstaklega þegar dómurinn felldi niður fordæmi Roe v Wade sem tryggði konum rétt til þungunarrofs. Sex dómarar af níu kusu með niðurfellingunni, en Breyer sem hættir í dag kaus gegn niðurfellingunni.

Ketanji Jackson sór í dag embættiseið og tekur formlega við af Breyer sem tilkynnti fyrr á árinu að hann ætlaði að hætta. Jackson var tilnefnd af Joe Biden Bandaríkjaforseta og var tilnefningin staðfest af öldungadeild Bandaríkjaþings í apríl. Þrír þingmenn Repúblikana, Susan Collins, Lisa Murkowski og Mitt Romney, kusu með tilnefningunni en hinir 47 á móti.
Það verða litlar breytingar á hugmyndafræðilegri stöðu hæstaréttar með komu Jackson þar sem staðan verður enn sú að sex íhaldssamir dómarar skipaðir af Repúblikönum eiga þar sæti og þrír frjálslyndir dómarar skipaðir af Demókrötum.