Juul er stærsti framleiðandi rafretta í Bandaríkjunum. Fyrirtækið kærði bann Matvæla- og lyfjastofnunarinnar (FDA) og féllst áfrýjunardómstóllinn á að stöðva gildistöku bannsins á meðan dómstólar skera úr um lögmæti þess, að sögn AP-fréttastofunnar. Að öðrum kosti hefði fyrirtækið neyðst til þess að hætta framleiðslu og kalla inn vörur sínar af markaði.
Rafrettuframleiðendur þurfa að gera sýnt fram á að vörur þeirra auki líkur á að fullorðnir reykingamenn hætti eða draga úr reykingum og að unglingar ánetjist þeim ekki. FDA taldi að Juul hefði ekki lagt fram fullnægjandi gögn um það.
Markaðshlutdeild Juul hefur minnkað verulega upp á síðkastið þó að fyrirtækið sé enn stærst á bandaríska markaðinum. Fyrirtækið hefur verið sakað um að bera ábyrgð á gífurlegri útbreiðslu rafrettureykinga á meðal unglinga.
Fyrir tveimur árum féllst Juul á að hætta auglýsingum og taka af markaði rafrettuvökva með ávaxta- og eftirréttabragði aftur að vörurnar urðu vinsælar á meðal gagnfræði- og framhaldsskólanema. Í millitíðinni takmarkaði FDA bragðtegundir fyrir rafrettur við tóbak og mentól.