Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið, embætti landlæknis, Sjúkratryggingar Íslands, Læknavaktin, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Vesturlands hafi að frumkvæði ráðuneytisins og í samræmi við ráðleggingar landlæknis myndað viðbragðsteymi um bráðaþjónustu í landinu.
Ástæðan er sú alvarlega staða sem uppi er innan bráðaþjónustunnar en í tilkynningunni segir ennfremur að orsakir þessarar slæmu stöðu séu margþættar en þyngst vegi skortur á heilbrigðisstarfsfólki og skortur á úrræðum fyrir aldraða, færniskerta og fleiri viðkvæma hópa.
Meðal þeirra aðgerða sem grípa á til eru samhæfing aðgerða og þétting samstarfs aðila innan heilbrigðiskerfisins, aukinn stuðningur við heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu og þá á að auka þjónustu bráðadagdeildar Landspítala og stækka aðstöðu þar.
Þá á að efla starfsemi bráðamóttöku á Heilbrigðisstofnunum Suðurnesja, Suðurlands og Vesturlands meðal annars með úrlestri mynd- og blóðrannsókna í samvinnu við Landspítala.
Einnig er tekið fram að bæta eigi ferla Landspítala til að stytta dvöl sjúklinga á bráðamóttöku spítalans. Hluti af því verkefni er að endurskoða meðferðarferla í öldrunarþjónustu og auka aðkomu fleiri sérgreina að þjónustu við sjúklinga á bráðamóttökunni.
Tilkynningin kemur í kjölfar þess að fagráð Landspítalans sendi frá sér ályktun í dag þar sem þungum áhyggjum var lýst af mönnun fagfólks á Landspítala. Þar segir að starfsfólk vanti í nær allar fagstéttir sem hafi neikvæð áhrif á þjónustuna og geti skapað ógn við öryggi sjúklinga og starfsfólks.
Þá var skorað á stjórnvöld að styðja við Landspítala með öllum tiltækum ráðum svo hægt væri að tryggja viðeigandi þjónustu við sjúklinga.