Sjávargresjan fannst fyrir tilviljun í Hákarlaflóa, um áttahundruð kílómetra norður af áströlsku borginni Perth. Landsvæðið sem það þekur er svipað að flatarmáli og 20.000 knattspyrnuvellir, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Þegar vísindamennirnir rannsökuðu erfðasýni úr sjávargrösunum sem þeir söfnuðu víða í flóanum urðu þeir furðu lostnir að uppgötva að þau voru öll sama plantan. Hún er nú talin sú stærsta á jörðinni.
Elizabeth Sinclair, einn af vísindamönnunum frá Háskólanum í Vestur-Ástralíu, segir plöntuna merkilega harðgera enda vaxi hún á svæðum í flóanum þar sem aðstæður séu afar misjafnar frá einum stað til annars.
„Hún virðist vera sérlega harðger og upplifir breitt bil hita og seltu auk gríðarlegrar birtu sem ætti allt saman að valda miklu álagi á flestar plöntur,“ segir Sinclair.
Sjávargrös vaxa eins og gras á landi, allt að þrjátíu og fimm sentímetra á ári. Út frá því áætla vísindamennirnir að það hafi tekið plöntuna í kringum 4.500 að ná núverandi stærð. Til samanburðar er það um það leyti sem talið er að pýramídarnir í Egyptalandi hafi verið reistir.
