Innblásturinn er fastur liður hjá Lífinu á Vísi þar sem rætt er við ólíkt fólk um hvað veitir því innblástur í tilverunni og hvaða ráðum þau luma á varðandi andlega heilsu.
Hver ert þú í þínum eigin orðum?
Ég er brosmild stelpa með mikið keppnisskap sem elskar að spila fótbolta.
Hvað veitir þér innblástur?
Að sjá fólk leggja mikla vinnu á sig og ná árangri í framhaldi af því.
Hvað er þitt besta ráð til að næra andlega heilsu?
Mitt besta ráð er að hreyfa sig eitthvað á hverjum degi, reyna að borða næringarríkan mat og sofa vel.
Svo er líka gott að hafa í huga að það er allt í lagi að vera ekki allt í lagi og það er engin skömm í því að leita sér hjálpar þegar þess þarf.
Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?
Ég vakna og fæ mér hafragraut í morgunmat. Fæ mér svo góðan kaffibolla og horfi á einhvern skemmtilegan þátt áður en ég legg af stað á æfingu. Fer svo niður upp á æfingasvæði og klæði mig og fer inn í rækt að liðka, styrkja og hita upp fyrir æfingu og svo út á æfingu.
Eftir æfingu borða ég hádegismat með stelpunum í matsalnum upp á velli og svo er restin af deginum mismunandi. Stundum er lyftingaræfing, stundum eru viðtöl eða annað slíkt og stundum fer ég bara heim að slaka á.
Nánast undantekningarlaust þarf reyndar að fara í búð yfir daginn því ég get ómögulega skipulagt eða ákveðið fram í tímann hvað ég vil borða í kvöldmat.
Um kvöldið elda ég góðan kvöldmat með kærastanum mínum og svo er bara rólegt kvöld yfirleitt.
Uppáhalds lag og af hverju?
Ég er algjör alæta þegar kemur að tónlist og vel mér yfirleitt eitthvað lag og hlusta á það svona tíu sinnum á dag í nokkra daga þangað til ég fæ leið á því og skipti þá um lag en akkúrat núna er það Never going home með Kungs.
Uppáhalds matur og af hverju?
Asian fusion er uppáhalds „út að borða“ maturinn minn. Heima elska ég tacos með heimagerðu guacamole eða núðlurétt með halloumi og tofu.
Besta ráð sem þú hefur fengið?
Að eyða ekki orku eða fókus í hluti sem ég get ekki stjórnað.
Hvað er það skemmtilegasta við lífið?
Að búa til minningar með vinum og fjölskyldu.