Fyrir tveimur til þremur vikum hófst jarðskjálftahrina við Svartsengi á Reykjanesi. Um síðustu helgi mældust nokkrir jarðskjálftar yfir þrír að stærð, sá stærsti þeirra 4,3 á sunnudag. Land hefur nú risið um nokkra sentímetra, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, jarðfræðings, sem var einn frummælenda á íbúafundinum í kvöld.
„Það er skýrt merki um að kvika sé byrjuð að troða sér inn á fjögurra til fimm kílómetra dýpi,“ sagði Magnús Tumi við fréttamann Stöðvar 2 fyrir fundinn.
Enn sem komið er hefði mjög lítil kvika safnast upp. Land gæti risið mun meira án þess að til eldgoss kæmi. Erfitt væri að segja hvenær slíkt gæti gerst. Magnús Tumi benti á að nú væri hafið óróatímabil á Reykjanesskaga sem þýddi að fólk þyrfti að vera viðbúið eldgosum.
Kæmi til goss á næstunni sagði Magnús Tumi líklegast að það yrði á þeim slóðum þar sem land rís nú. Á þeim slóðum eru miklir innviðir: raforkuver í Svartsengi, Bláa lónið, Grindavíkurvegur og hitaveitulagnir.
„Þannig getur orðið mikið tjón þó að það yrði ekki mjög stórt gos,“ sagði Magnús Tumi.
Líkurnar á manntjóni væru þó litlar þar sem hlutirnir gerist ekki það hratt í hraungosi.
„En þetta er svona staður þar sem geta orðið miklar skemmdir,“ sagði hann.