Um er að ræða fimm herbergja íbúð sem er 200,7 fermetrar að stærð í raðhúsi við Reykás sem byggt var árið 1983. Í fasteignaauglýsingu er tveggja hæða íbúðin sögð vera vel staðsett nálægt skólum og allri almennri þjónustu í Árbæjarhverfi. Fermetraverð eignarinnar er 644.245 krónur. Verðhækkunin á seinustu þremur árum er langt frá því að vera einsdæmi en veitir ákveðna innsýn inn í stöðu fasteignamarkaðarins á höfuðborgarsvæðinu.
„Þetta er í rauninni ekkert hærra heldur en gengur og gerist og svo er stundum sem maður fær ekki alveg að ráða verðinu,“ segir Sandra Vestmann, fasteignasali hjá Nýju heimili, sem tók eignina nýlega í sölu.

Ásett verð eignarinnar var 120 milljónir króna þegar hún var á skrá í fimm daga í mars en þegar hún var auglýst á ný þann 11. maí var verðið komið upp í 129,3 milljónir. Nemur hækkunin um 7,75 prósentum á tveimur mánuðum.
Erfið staða hjá fasteignasölum
Mikið hefur verið fjallað um þróun íbúðaverðs en verð íbúða í fjölbýlum á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 39,67 prósent frá því í febrúar 2019, samkvæmt gögnum Þjóðskrár.
„Það liggur við að maður setji ekki verð á í dag, það virðist vera sama hvað maður setur á í rauninni þegar við erum að verðleggja. Þá gerum við náttúrlega út frá því sem hefur verið að seljast,“ segir Sandra. Sjálfri finnist henni umrædd eign hafa hækkað fullmikið á seinustu árum.
„Svo er maður að verðleggja eignir sem eiga kannski að seljast samkvæmt öllu á 120 milljónir en þær eru að fara á 140. Það er rosalega erfitt orðið fyrir fasteignasala því við erum kannski að setja verð sem við viljum hafa og teljum rétt en svo koma kannski eigendur og segja: „Nei, þessi eign seldist á þessu verði og ég vil hafa þetta verð.“ Við þurfum líka að hlusta á eigendur.“

Orðið líkara uppboði
Sandra segir að allir séu sammála um að fasteignamarkaðurinn sé algjörlega kominn úr böndunum og það sé ekki vilji fasteignasala að hafa verðið sem allra hæst.
„Ég er ekki að segja að það sé í þessu tilviki, en það er ekki alltaf sem við fáum að setja verð sem maður kannski vill að sé. Að sjálfsögðu vitum við það öll að þetta er orðinn crazy markaður. Þetta er bara orðið eins og uppboð í rauninni. Mér finnst þetta vera brjálæði þessar hækkanir og ég er sjálf í þeirri stöðu að ég ætla að bíða með að kaupa.“
Um sé að ræða virkilega erfitt ástand og hún finni sérstaklega til með ungu fólki sem sé að reyna að kaupa sína fyrstu eign.
Reiði í garð fasteignasala
Sandra segist hafa fundið fyrir reiði í garð fasteignasala og að sumir saki þá um að bera ábyrgð á ástandinu. Hún hafnar því og segist vera við það að roðna þegar eignir seljast langt yfir ásettu verði.
„Við erum ekkert alltaf að stjórna þessu verði við fasteignasalar. Bara alls ekki, svo langt frá því. Maður skilur líka að ef fasteignaeigendur sjái einhverja eign sem selst á þessu verði að þau vilji fá það sama.“

Sandra segir að því miður sé enn allt of lítið framboð af fasteignum sem skekki allan markaðinn.
„Staðan er þannig að ef eignin er í eftirsóttu hverfi og er á eðlilegu verði og annað þá er oft rifist um þær eignir og þær fara á yfirverði. Það þarf fleiri eignir svo markaðurinn fari í eðlilegt horf,“ segir Sandra og bindur vonir við að einhver hreyfing komist á þessi mál eftir nýafstaðnar kosningar.
„Það eru allavega allir að lofa öllu.“