Sex skjálfta yfir þremur að stærð hefur orðið vart síðasta sólarhringinn, sá stærsti mældist 4,8 að stærð og kom upp við Þrengslin um klukkan fimm í dag.
Um 500 skjálftar hafa verið skráðir í sjálfvirkt mælakerfi Veðurstofunnar síðustu 48 klukkustundir, að því er segir í færslu á Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands á Facebook.
„Þessi virkni kemur á sama tíma og þenslu hefur orðið vart á nýjan leik norðan Grindavíkur, við Þorbjörn og Svartsengi,“ segir í færslunni.
Landrisið við Þorbjörn hefur verið tuttugu til þrjátíu millimetrar það sem af er mánuði. Slík þensla geti orsakað aukna spennu á Reykjanesskaganum og ýtir undir aukna skjálftavirkni.
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruváreftirlits hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að ekki væri ósennilegt að stóri skjálftinn í dag tengdist jarðhræringum á Reykjanesi.