Þetta sagði Kolbrún í samtali við fréttastofu eftir að hún hafi kosið í Ráðhúsinu í Reykjavík um klukkan 11:30 í dag.
Kolbrún segir daginn leggjast vel í sig. „Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu, en svo er þetta náttúrulega bara þannig að það er ekki fyrr en kemur upp úr kössunum að niðurstaðan liggur fyrir.“
Hún segist nú vera á leiðinni heim að slaka á, en svo liggi leiðin á skrifstofu flokksins til að hitta kjósendur og grasrót flokksins.
Kolbrún segir kosningabaráttuna hafa verið málefnalega og segist hún ekki vera sammála þeim sem segja kosningabaráttuna hafa byrjað seint og að lítið hafi farið fyrir henni. „Mér fannst einmitt fara hellingur fyrir henni og að á hverjum degi var eitthvað að gerast. Þetta var mjög skemmtilegt líka. Maður gat notið þess að vera í þessu.“
Kolbrún segist vona að Flokkur fólksins nái inn öðrum manni, en Kolbrún er nú eini borgarfulltrúi flokksins. „Já, okkur langar mjög að komast í meirihluta og geta komist að borðinu til að geta okkar góðu málum í gegn. Alveg virkilega. Það er draumurinn,“ segir Kolbrún.
Sjá má viðtalið við Kolbrúnu í heild sinni í spilaranum að neðan.