Í samtali við fréttastofu ítrekaði Þórdís Lóa að enginn ætti að gleyma að kjósa í dag.
Þá sagði hún kjördaga vera mjög frábrugðna öðrum í kosningabaráttunni og að hún myndi nú fara og kíkja á kosningastofurnar.
Aðspurð um væntingar sínar fyrir Viðreisn sagði hún flokkinn hafa mælst á nokkuð stóru bili en markmið þeirra væri að ná Pawel Bartoszek, sem er í öðru sæti listans, inn í borgarstjórn. Kannanir hafa sýnt að það er tæpt en Þórdís Lóa sagðist hafa trú á því að það tækist.
Þórdís Lóa sagði einnig að kosningabaráttan hefði verið mjög skemmtilegt, þó hún hefði verið stutt og knöpp. Það hefði einkennt baráttuna hve seint hún hefði farið af stað.
Þá sagði hún töluverðan mun hafa verið á kosningabaráttunni nú, samanborið við fyrir fjórum árum síðan. Pólariseríng væri minni en áður.
„Við erum öll miklu meira sammála um stóru línurnar og erum að hnýtast um miklu minni línur en 2018. Ég vinn mikinn mun á skilaboðum borgarbúa til mín heldur en þá. Það voru meiri átök þá,“ sagði Þórdís Lóa.
Hún sagði húsnæðismálin hafa verið mun fyrirferðarmeiri og þau hefðu einkennt kosningabaráttuna.
Varðandi það hvort hún og hennar fólk í Viðreisn væru farin að horfa í kringum sig varðandi framhaldið sagði Þórdís Lóa að Viðreisn gæti starfað með öllum.
„Við í Viðreisn getum starfað með öllum og meira að segja Sósíalistum sem vilja ekki starfa með okkur en við höfum fulla trú á að við getum starfað með þeim líka.“