Viðskiptablaðið segir frá því að milljarðarnir séu fyrsti fasi af því sem verður í heildina 7,5 milljarða króna hlutafjáraukning félagsins. Það hyggist meðal annars koma upp 40 þúsund tonna landeldi í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun.
Alf-Helge Aarskog, fyrrverandi forstjóri Mowi, stærsta fiskeldisfyrirtækis heims, tekur sæti í stjórn Samherja fiskeldis á aðalfundi félagsins á næstunni, að sögn blaðsins.
Kostnaður við fyrsta áfanga landeldisins á Reykjanesi er áætlaður um sautján milljarðar króna. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að ef vel gangi með fyrsta fasann verði annað hvort leitað að fleiri fjárfestum til að fjármagna annan og þriðja fasa verkefnisins eða að félagið verði skráð á markað.