Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði meginvexti sína úr 2,75 prósentum í 3,75 prósent í síðustu viku. En slíkar hækkanir leiða að óbreyttu til hækkana á húsnæðisvöxtum viðskiptabankanna og þar að leiðandi greiðslubyrði þeirra.
Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka er vongóð um að viðskiptavinir bankans ráði við hækkanir á afborgunum lána sem gætu verið framundan.
„Við erum ennþá bjartsýn á að okkar viðskiptavinir ráði við þessar hækkanir en auðvitað tekur þetta í hjá öllum,“ segir Birna.
Tæpur þriðjungur viðskiptavina bankans er með óverðtryggð húsnæðislán á föstum vöxtum til þriggja til fimm ára. Þriðjungur er með verðtryggð lán með fasta vexti í fimm ár. Svipað hlutfall er með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum og en aðeins 6% viðskiptavina er með breytilega vexti á verðtryggðum lánum.
Afborganir óverðtryggðra lána á breytilegum vöxtum geta hækkað meira en afborganir annarra lána þegar vaxtahækkanir verða. Höfuðstóll verðtryggra lána hækkar hins vegar meira en óverðtryggðra lána við vaxtahækkanir en afborganir haldast stöðugri þar.
Birna segir að bankinn hafi ekki hækkað sína vexti eins hratt og Seðlabankinn.
„Við höfum ekki hækkað útlánavexti í takt við hækkanir Seðlabankann frá því hækkunarferlið hófst þannig að við erum bara að skoða þau mál núna,“ segir Birna.
Hækkunarferli Seðlabankans hófst fyrir um ári en Seðlabankastjóri sagði við síðustu stýrivaxtahækkun að með henni væri verið að reyna að ná taumhaldi á verðbólgu sem er ríflega sjö prósent og hefur ekki verið hærri í tólf ár.