Hinn 19 ára gamli Davíð Snær stóð sig með prýði er Keflavík hélt sæti sínu í efstu deild hér á landi síðasta haust. Í kjölfarið var hann orðaður við FH en fór á endanum til Ítalíu.
Nú virðist sem FH sé loks að fá sinn mann en samkvæmt heimildum Vísis er FH að kaupa miðjumanninn unga frekar en að fá hann á láni. Félagaskiptaglugginn hér á landi lokar á miðnætti þann 11. maí og því hafa Hafnfirðingar enn nokkra daga til að ganga frá sínum málum.
Davíð Snær hefur leikið með vara- og unglingaliði Lecce en aðallið félagsins er hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni. Félagið hefur leitað mikið til Íslands að undanförnu og spilar Þórir Jóhann Helgason stóra rullu í aðalliði félagsins. Þá gekk Brynjar Ingi Bjarnason í raðir þess en var skömmu síðar seldur til Vålerenga í Noregi.
Faðir Davíðs, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaðurinn Jóhann Birnir Guðmundsson, þjálfar í dag hjá FH eftir að hafa starfað hjá Keflavík síðan skórnir fóru á hilluna. Hann er afreksþjálfari félagsins ásamt því að vera hluti af þjálfarateymi 4. flokks karla.
Davíð Snær hefur þrátt fyrir ungan aldur safnað ágætri reynslu hér á landi en alls á hann að baki 76 deildar- og bikarleiki. Þá hefur hann alls spilað 40 leiki fyrir yngri landslið Íslands.
FH er í 8. sæti Bestu deildar karla með 3 stig eftir þrjár umferðir.
Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.